Innlent

Allir hættir að tala um Parísarklúbbinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon segir að betur gangi við endurreisn efnahagslífsins en gert hafði verið ráð fyrir.
Steingrímur J. Sigfússon segir að betur gangi við endurreisn efnahagslífsins en gert hafði verið ráð fyrir.
„Það hefur enginn minnst á Parísarklúbbinn í heilt ár," sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra við upphaf þingfundar í dag. Þar svaraði hann gagnrýni þingmanna stjórnarandstöðunnar þess efnis að endurreisn efnahagslífsins og uppbygging atvinnu gengi hægt. Parísarklúbburinn er stofnun sem gjaldþrota þjóðir leita til vegna úrlausna sinna mála. Steingrímur benti á það í umræðunum á þingi að menn óttuðust ekki lengur greiðslufall íslenska ríkisins.

Steingrímur sagði að Ísland væri vel á veg komið með að vinna úr sínum málum og koma þeim í skjól. Önnur ríki í Evrópu glímdu hins vegar við erfiðleika. Það væri samt sem áður lítil huggun fyrir Íslendinga þó að aðrar þjóðir glímdu við erfiðleika.

Steingrímur sagði að betur hefði gengið en á horfðist. Til dæmis væri uppsafnaður halli ríkisins um 75 milljörðum minni á tveimur síðustu árum en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Endurreisn bankakerfisins hefði verið ódýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir og vextir og verðbólga væri minni en gert hafði verið ráð fyrir.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi þau orð Steingríms að menn óttuðust ekki lengur greiðslufall. Þetta hafi einmitt verið tóninn í umræðunni rétt fyrir síðustu áramót þegar að umræðan um Icesave samninga ríkisstjórnarinnar stóðu sem hæst.

„Ég man nú ekki betur en svo að fyrir ári síðan stóðum við hér í þessum þingsal og vorum að hefja hinar miklu og löngu umræður um Icesave samningaviðræður ríkisstjórnarinnar," sagði Unnur Brá. Á þeim tíma hefðu stjórnarliðar fullyrt að ef þingheimur myndi ekki láta kúga sig til að samþykkja þetta samkomulag myndi allt stefna í greiðslufall íslenska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×