Innlent

Matarkarfan hækkað um rúmar þúsund krónur á tveimur árum

Innfluttar vörur hafa hækkað um allt að áttatíu prósent í matarkörfu Stöðvar tvö frá því skömmu eftir bankahrun. Verð á innfluttum matvælum virðist því ekki hafa verið að fylgja styrkingu krónunnar.

Lóa Pind Aldísardóttir mældi matvælavísitölu fréttastofu í dag.

Við tókum slembiúrtak af seðlinum og byrjuðum á innfluttum vörum, fyrst gengi krónunnar er svipað nú og þá - og í ljósi þess að krónan hefur verið að styrkjast allt þetta ár.

Það byrjar ekki vel - Hunts tómatsósan reyndist 78% dýrari í dag, Yogi detox teið hafði hækkað heldur minna, eða 34%, kílóverðið af lauk um heil 64% en Jacobs pítubrauðin hafa lækkað um átta prósent og er það fyrsta sem lækkar í matarkörfunni að þessu sinni.

Ódýrasta fíkjuboxið sem við fundum hafði rokið upp í verði, um 73%, litlar innfluttar gulrætur eru nú rúmlega 50% dýrari og rauðu vínberin eru í dag 46% dýrari en skömmu eftir bankahrun.

Hafi menn gert sér vonir um að innfluttar vörur færu lækkandi með styrkingu krónunnar, hafa því ekki verið bænheyrðir. En snúum okkur að innlendu vörunum.

Það byrjar vel, heilsutvennan frá Lýsi hefur lækkað, um tíu prósent, en þá kemur smjörvinn sem hefur hækkað um 30%, kílóverðið af brauðosti hefur hækkað um 14% og nýmjólkin blessaða um 16%.

Karfan nú kostaði 4944 krónur en fyrir tveimur árum hefði sama karfa kostað 3972 krónur. Þessi slembikarfa Stöðvar tvö í Krónunni hefur því hækkað um fjórðung síðan þjóðin stóð á kafi í miðju bankahruni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×