Erlent

Wikileaks skjölin: Kínverjar orðnir þreyttir á N-Kóreumönnum

Kim Jong Il, leiðtogi Norður Kóreu.
Kim Jong Il, leiðtogi Norður Kóreu.

Kínverjar virðast færast æ meira á þá skoðun að sameina eigi ríkin á Kóreuskaganum á ný.

Þetta kemur fram í skjölum sem gerð voru opinber af Wikileaks í gær en skjölin varpa ljósi á samskipti bandarískra sendiráða víða um heim við stjórnvöld í viðkomandi löndum og álit bandarískra embættismanna á ýmsum þjóðarleiðtogum.

Í skjölunum sem varða málefni Kóreu má sjá að háttsettir kínverskir embættismenn eru farnir að tala um stjórnarherrana í Norður-Kóreu sem spillta smákrakka, en Kínverjar hafa hingað til verið hörðustu stuðningsmenn N-Kóreu manna. Fregnir af þessum breyttu sjónarmiðum í Peking koma á versta tíma fyrir Kim Jong Il og félaga í Norður Kóreu því ástandið á skaganum hefur sennilega ekki verið eldfimara frá því vopnahléi var lýst yfir árið 1953.

Í skjölunum kemur þó fram hörð gagnrýni Kínverja á viðleitni Bandaríkjamanna til þess að þrýsta á N-Kóreumenn en þó er greinilegt að þeir eru orðnir þreyttir á stælunum, sérstaklega eftir að norður kóreumenn fóru að reyna fyrir sér í smíði kjarnorkuflauga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×