Innlent

Úrslit kosninganna kynnt síðar í dag

Ástráður Haraldsson.
Ástráður Haraldsson.

Formaður landskjörstjórnar segir að vel hafi gengið að vinna úr úrslitum stjórnlagaþingskosninganna í morgun og hann reikni með að hægt verði að kynna úrslitin seinnipartinn í dag.

Kosningarnar sem fram fóru til stjórnlagaþings á laugardag eru einstakar í sinni röð. Aldrei áður hafa kjósendur getað valið á milli jafn margra einstaklinga í persónukjöri og aldrei áður hafa kjósendur þurft að styðjast við auðkennisnúmer í kosningum. Ástráður Haraldsson formaður landskjörstjórnar segir að nauðsynlegt hafi verið að skoða 13 til 14 prósent atkvæða nánar, eða á tólfta þúsund atkvæða.

Ástráður segir að vel hafi gengið í morgun við útreikninga á úrslitunum og framkvæmd kostgæfnisathugunar sem jafnhliða sé unnin á framkvæmd talningarinnar. Ef ekkert óvænt komi upp á næstu klukkustundirnar, ætti að vera hægt að kynna úrslit kosninganna seinnipartinn í dag. En þegar útreikningar liggja fyrir gæti þurft að varpa hlutkesti um einstaka frambjóðendur sem hafa fengið jafn mikið fylgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×