Erlent

Húsið hvarf til himins

Óli Tynes skrifar
Þetta getur gerst ef menn eru að framleiða dýnamit í kjallaranum.
Þetta getur gerst ef menn eru að framleiða dýnamit í kjallaranum.

Einbýlishús sprakk í loft upp í bænum Vestby í Noregi í nótt og skemmdust fjölmörg hús í nágrenninu. Í ljós kom að eigandinn hafði verið að framleiða dýnamit í kjallara hússins.

Ekkert manntjón varð. Vestby er friðsæll lítill bær skammt utan við Osló. Íbúarnir vöknuðu við nokkrar smásprengingar og héldu í fyrstu að verið væri að skjóta upp rakettum.

Einhverjir fóru út að gluggum til að horfa á og komu mátulega til þess að sjá húsið hverfa til himins. Grunnurinn einn stendur eftir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni kom upp eldur í húsinu og húseigandinn og sonur hans höfðu rétt náð að forða sér þegar húsið sprakk.

Samkvæmt norskum lögum er einkaaðilum leyfilegt að búa til dýnamit ef þeir hafa til þess tilskilda pappíra.

Í frétt norska boaðsins Aftenposten um þetta er þess ekki getið hvort sú framleiðsla má fara fram í íbúðahverfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×