Innlent

Einelti gegn kennurum tilkynnt til barnaverndar

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ekki hafa verið teknar saman tölur um einelti nemenda í garð kennara
Ekki hafa verið teknar saman tölur um einelti nemenda í garð kennara Mynd úr safni

„Einelti er meðal alvarlegustu samskiptavandamála sem upp koma á vinnustöðum og innlendar sem erlendar rannsóknir benda til þess að allt að 8 til 10% starfsmanna verði fyrir einelti í vinnu."

Þetta kemur fram í bréfi sem vinnuumhverfisnefnd Kennarasambands Íslands sendi skólastjörnendum og trúnaðarmönnum KÍ í vor. Vinnuumhverfisnefndin hafði þá sett ramma um það ferli sem æskilegt væri að ofbeldismál gegn færu í.

Þegar kennari verður fyrir ofbeldi af hendi nemanda er fyrsta skrefið að tilkynna það til skólastjóra sem skoðar hvernig skólareglur taka á atvikinu. Næsta skref er að funda með foreldrum og nemanda ef það á við, en áður er mögulegt að leita aðstoðar og ráðgjafar hjá viðkomandi aðildarfélagi KÍ.

Dæmi eru um að ofbeldi nemanda undir fimmtán ára aldri hafi verið tilkynnt til barnaverndaryfirvalda. Að sögn Ernu Guðmundsdóttur, lögmanns KÍ og BHM, hafa þó ekki verið teknar saman tölur yfir fjölda slíkra mála.

Ef nemandi sem beitir kennara ofbeldi er yfir fimmtán ára aldri er málið ekki lengur á forsjá barnaverndaryfirvalda heldur yrði tilkynnt til lögreglu ef ástæða þykir til. Erna þekkir ekki dæmi um slíkt og bendir á að kennurum finnist það gjarnan íþyngjandi að tilkynna nemanda sinn til lögreglu, jafnvel þó hann hafi beitt alvarlegu ofbeldi.

Samkvæmt því ferli sem vinnuumhverfisnefnd hvetur til að ofbeldismál gegn kennurum fari í þarf að gæta þess að skrá atvikið. Lagt hefur verið til að með aukinni gagnaöflun verði hægt að vinna tölfræðiupplýsingar sem geta þá nýst við rannsóknir á ofbeldinu og samanburð á milli tíma, sem og mögulega sem samanburður við önnur lönd.

Með því að smella hér má sjá myndræna útfærslu af ferlinu á vef KÍ.

Á þeirri önn sem stendur yfir er „einelti og áreitni á vinnustöðum" þema vinnuumhverfisnefndar.

Einnig var rætt við Ernu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær þar sem hún sagði dæmi um mjög alvarlegt líkamlegt ofbeldi gegn kennurum í skólum landsins. Hún segir að jafnvel komi fyrir að foreldrar neiti að horfast í augu við vandann og snúast gegn þeim kennara sem barn sitt hefur beitt ofbeldi. Kennarar sem verða fyrir einelti fyllast kvíða og hræðslu, og þurfa sumir hverjir að leita læknis vegna þessa.






Tengdar fréttir

Dæmi um að kennari hafi verið stunginn með skeið

Ofbeldi nemenda í garð kennara getur orðið mjög hrottalegt og dæmi eru um að foreldrar barna taki þátt í eineltinu. Kennarar verða jafnvel fyrir barsmíðum í skólanum og þeir kvíða hverjum vinnudegi. Kennarasamband Íslands hyggst taka á málinu.

Nemendur beita kennara ofbeldi - alvarlegt vandamál

„Þetta ofbeldi varði þar til mér var ofboðið þannig að ég varð að leita læknis og var síðan frá kennslu meðan ég var að ná heilsu á ný. Það þarf ansi mikið til að kennurum ofbjóði. Þeir eru flestir með langlundargeð, annars væru þeir ekki í þessu starfi," segir kennari sem varð fyrir ofbeldi af hálfu ungs grunnskólanema. Kennarinn segir ofbeldið kannski ekki hafa getað kallast líkamlegt en allt að því. Viðkomandi nemandi hafi oftar en ekki slegið til sín og haft í frammi alls konar ögranir án þess þó að líkamleg meiðsl hlytust af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×