Innlent

Tillögur umbótanefndar kynntar

Ásgeir Beinteinsson, skólastjóri, er einn fjögurra verkstjóra í 16 manna umbótanefnd Samfylkingarinnar.
Ásgeir Beinteinsson, skólastjóri, er einn fjögurra verkstjóra í 16 manna umbótanefnd Samfylkingarinnar. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Skýrsla og tillögur umbótanefndar Samfylkingarinnar eru meginefni flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar sem fram fer á Hótel Loftleiðum í dag.

Flokksstjórn ákvað að stofna nefndina í apríl en henni var ætlað að leiða umræður og skoðanaskipti um störf, stefnu, innri starfshætti og ábyrgð Samfylkingarinnar í aðdraganda bankahrunsins. Tillögur umbótanefndarinnar verða kynntar í upphafi fundarins af verkstjórn nefndarinnar, en flokksstjórnarfundurinn markar upphafið að meðferð tillagnanna innan flokksins.

Jóhanna Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, setur fundinn klukkan 11 og í kjölfarið tekur Dagur B. Eggertsson, varaformaður flokksins, til máls og fer yfir næstu skref í umbótastarfi flokksins. Að því loknu mun verkstjórn umbótanefndar, þau Ásgeir Beinteinsson, Hólmfríður Sveinsdóttir, Jón Ólafsson og Kolbrún Benediktsdóttir, kynna tillögur nefndarinnar.

Eftir hádegishlé verður unnið í 10 manna hópum við hringborð þar sem leitað verður svara við því hvernig best megi tryggja vandaða meðferð tillagna umbótanefndar. Að því loknu flytur formaður flokksins ræðu sem ber yfirskriftina Betri stjórnmál - ábyrgð Samfylkingarinnar. Síðan taka við almennar umræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×