Innlent

Umfjöllun DV gæti haft áhrif á ákvörðun FME

Fjármálaeftirlitið hefur ekki gefið samþykki sitt fyrir því að hópur fjárfesta undir forystu Heiðars Más Guðjónssonar fái að kaupa Sjóvá og óvíst hvort slíkt samþykki verði veitt, en umfjöllun DV um Heiðar Má kann að hafa áhrif á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

Sem kunnugt er freistar hópur fjárfesta undir forystu Heiðars Más Guðjónssonar að kaupa tryggingafélagið Sjóvá. Samkvæmt lögum um vátryggingarstarfsemi skal aðili sem hyggst eignast, einn sér eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í vátryggingafélagi tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín og sendu Heiðar Már og félagar tilkynningu til FME fyrir þónokkru síðan.

Heiðar Már sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að aðeins væri eftir undirskrift Seðlabanka Íslands, sem fer með 73 prósenta hlut í félaginu, til að klára samninga um kaupin. Í viðtali í Íslandi í dag á sunnudaginn síðastliðinn sagði Heiðar Már síðan eftirfarandi:

„Ég er nú reyndar að vona að þessir samningar takist á tveimur eða þremur dögum, þá er hægt að upplýsa um að þetta takist allt saman," sagði Heiðar Már þá.

Heiðar Már sagði í samtali við fréttastofu að Seðlabankinn hefði ekki enn gert upp hug sinn. Málið er hins vegar ekki svo einfalt að aðeins þurfi undirskrift Seðlabankans til að klára samningana. Samkvæmt lögum um vátryggingarstarfsemi leggur FME mat á hvort sá sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs vátryggingafélags. Við mat á hæfi viðkomandi skal m.a. höfð hliðsjón af orðspori þess sem hyggst eignast eða auka við virkan eignarhlut í viðkomandi vátryggingafélagi.

Samkvæmt upplýsingum frá FME hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um hvort hópur fjárfesta undir forystu Heiðars Más sé hæfur til að fara með virkan eignarhlut í Sjóvá. Þær upplýsingar fengust að málið væri í vinnslu.

Samkvæmt upplýsingum frá FME gæti umfjöllun DV um Heiðar Má haft áhrif á hæfi hans og meðfjárfesta hans til að eiga Sjóvá, enda er sá skilningur lagður í ákvæðið í lögunum að um sé að ræða „orðsporsáhættu í víðu samhengi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×