Fótbolti

Sneijder treystir á fótboltaþekkingu Mourinho á móti Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder og Jose Mourinho.
Wesley Sneijder og Jose Mourinho. Mynd/Getty Images
Hollenski miðjumaðurinn Wesley Sneijder dreymir um endurkomu á Santiago Bernabéu en þó ekki til að spila fyrir Real Madrid sem hafði ekki not fyrir hann heldur til þess að spila með FC Internazionale Milano í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni sem fer fram á heimavelli Real Madrid. Undanúrslit Meistaradeildarinnar hefjast í þessari viku.

„Þetta varð draumurinn minn um leið og ég kom til Inter því ég vissi að úrslitaleikurinn yrði á Bernabéu. Við erum bara tveimur leikjum frá þessu núna," sagði Wesley Sneijder í viðtali við heimsíðu UEFA en hann verður í aðalhlutverki þegar Internazionale tekur á móti Barcelona í fyrri leiknum í Mílanó á morgun.

Internazionale þarf að hafa sérstakar gætur á Lionel Messi sem skoraði fernu í seinni leiknum á móti Arsenal í átta liða úrslitunum.

„Já ég hef heyrt um Messi," sagði Wesley Sneijder. „Ég tel eins og margir aðrir að hann sé besti leikmaðurinn í heimi í dag en auðvitað er alveg hægt að stoppa hann. Af hverju ekki? Við sjáum til eftir leikina," sagði Sneijder.

Wesley Sneijder treystir á fótboltaþekkingu þjálfarans Jose Mourinho á móti Barcelona.

„Mourinho er frábær þjálfari. Hann veit alveg nákvæmlega hvernig hann nær því besta út úr einstaklingunum og um leið út úr liðinu. Þess vegna hef ég ekki miklar áhyggjur af undanúrslitaleikjunum því hann mun segja okkur það sem enginn annar veit um Barcelona. Þar liggur styrkur Mourinho, sagði Sneijder.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×