Innlent

Bandarísk útgáfa af Næturvaktinni í undirbúningi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alþjóðlega kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Reveille hefur fengið til liðs við sig Sony Pictures um að fjármagna og dreifa bandarískri útgáfu af Næturvaktinni þar sem allar helstu sögupersónur þáttanna og söguþráður yrðu staðfærð inn í bandarískt samfélag.

Búið er að skrifa handrit að fyrsta þættinum og sjónvarpsstöðin FOX hefur tryggt sér sýningarréttinn á þáttaröðinni, verði ákveðið að framleiða hana. Í fréttatilkynningu frá Sagafilm kemur fram að á næstu dögum vikum muni það skýrast hvort og hvenær svokallaður PILOT þáttur verður framleiddur. PILOT þáttur er fyrsti þáttur þáttaraðar, framleiddur á hefðbundinn hátt, með þeim leikurum sem þykja réttir í hlutverkin. Þessi þáttur er svo notaður til prufusýninga fyrir almenning en viðbrögð þeirra ákveða svo hvort þátturinn fer í almenna framleiðslu.

„Viðbrögð Reveille, Sony Pictures og FOX hafa farið framúr björtustu vonum okkar og eru í raun alveg ótrúleg," segir Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdastjóri Sagafilm. „Þetta hefur gengið hratt og vel fyrir sig og geinilegt að áhugi manna er mikill fyrir þessu verkefni," bætir hann við.

Reveille kvikmyndaframleiðandinn er sama fyrirtæki og stendur að baki vinsælum þáttum á borð við The Office, Biggest Loser, Tudors og Ljótu Betty.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×