Erlent

Stokka upp í landbúnaði

Dacian Ciolos, landbúnaðarstjóri Evrópusambandsins, kynnti þrjár meginleiðir á blaðamannafundi í Brussel í vikunni.nordicphotos/AFP
Dacian Ciolos, landbúnaðarstjóri Evrópusambandsins, kynnti þrjár meginleiðir á blaðamannafundi í Brussel í vikunni.nordicphotos/AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í vikunni hugmyndir um breytingar á sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, sem stefnt er að á næstu árum.

Meginbreytingarnar, sem stefnt er að, verða fólgnar í því að smærri bændum verði tryggt meira fé en nú er, þeir sem stunda búskap á erfiðum landbúnaðarsvæðum fái meiri stuðning og sömuleiðis verði betur stutt við bakið á matvælaframleiðslu frekar en öðrum landbúnaði.

Framkvæmdastjórnin leggur til þrjár mismunandi leiðir sem ganga mislangt, allt frá því að farið verði rólega í allar breytingar á núverandi kerfi yfir í allsherjar uppstokkun sem fæli í sér afnám beingreiðslna til bænda. Ekki er þó stefnt að neinum breytingum á því fjármagni sem Evrópusambandið ver í landbúnaðarkerfið.

Tillögurnar eru byggðar á niðurstöðum ráðstefnu, sem haldin var fyrr á árinu. Þessar tillögur verða nú bornar undir hagsmunaaðila og síðan verður lögð fram endanleg tillaga að lagabreytingum í júní á næsta ári.

Öll aðildarríkin þurfa að samþykkja breytingarnar áður en þær taka gildi, og þær verða einnig að fá samþykki Evrópuþingsins.

Dacian Ciolos, hinn rúmenski landbúnaðarstjóri Evrópusambandsins, segir megináhersluna vera á að landbúnaðarstefnan verði „grænni, sanngjarnari, hagkvæmari og árangursríkari“.

Á ráðstefnunni fyrr á árinu var talað um þrjú meginmarkmið, sem stefnt skuli að: Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins eigi að tryggja örugga og næga framleiðslu á matvælum; hún eigi að gefa bændum hvata til að taka tillit til umhverfis- og loftslagssjónarmiða; og loks eigi hún að taka mið af því að bændur gegni meginhlutverki í að halda strjálbýlum svæðum í byggð.

Evrópusambandið varði 55 milljörðum evra í landbúnaðarmál á síðasta ári, en á núverandi gengi nemur sú fjárhæð um það bil 8.500 milljörðum króna.

Breytingartillögurnar hafa fengið misjafnar viðtökur. Írskir bændur hafa til dæmis gagnrýnt róttækari hugmyndirnar um að stokka upp í beingreiðslum, þannig að þeim verði dreift til bænda óháð fyrri reynslu. Þeir óttast að það geti grafið undan landbúnaðarframleiðslu af öllu tagi.

Sameiginlega landbúnaðarstefnan hefur sætt margvíslegri gagnrýni, meðal annars fyrir að vera of dýr og óhagkvæm.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×