Innlent

Heitar súkkulaðiráðstafanir

Fríða Sigurðardóttir býst við mikilli jólaös á kaffihúsinu á þorláksmessu og hafa starfsmenn gert viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við því.
Fríða Sigurðardóttir býst við mikilli jólaös á kaffihúsinu á þorláksmessu og hafa starfsmenn gert viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við því.
„Það er rosalega góð stemning í bænum og salan er betri heldur en í fyrra,“ segir Arndís B. Sigurgeirsdóttir, verslunarstjóri og eigandi bókabúðarinnar Iðu á Lækjargötu. „Kannski er bærinn að bjóða upp á meira í ár heldur en áður, ég veit það ekki. En hvað sem það er þá er það allavega að virka.“

Verslunareigendur á Laugaveginum virðast almennt vera á sama máli um það að þrátt fyrir kólnandi veður og verslunarmiðstöðvar, sé að aukast líf í miðbæ Reykjavíkur að nýju fyrir jólin.

„Mér finnst bærinn vera að koma aftur og ég er farin að heyra aftur hljóð í fólki eins og í gamla daga, áður en verslunarmiðstöðvarnar komu, að fara saman í bæinn,“ segir Arndís. „Það er bjartara yfir fólkinu heldur en hefur verið og þrátt fyrir frosthörkur er jólastemningin hér.“

Sala á erlendum bókum í Iðu hefur aukist um 40 prósent sé miðað við sama tíma í fyrra. Arndís segir svokallaðar „Table Top“ bækur verði vinsælli gjafir með hverju ári en sala á íslenskum bókum hefur haldist stöðug.

„Það er meira að gera í dag en í gær og það heldur lífinu í okkur kaupmönnunum,“ segir Arndís.

Fríða Sigurðardóttir, starfsmaður á kaffihúsinu Tíu dropum á Laugaveginum, tekur undir orð Arndísar og segir stemninguna í miðbænum fara stigvaxandi dag frá degi.

„Fólk pantar heitt súkkulaði eins og það sé að fara úr tísku,“ segir Fríða. „Fólk hrannast inn og það myndast oft biðraðir út úr dyrum.“

Fríða hefur undirbúið starfsfólk 10 dropa vel undir stærsta kvöld ársins, Þorláksmessu.

„Þá verður toppnum náð,“ segir hún. „Við erum búin að setja neyðarráðstafanir í gang til þess að það muni allt ganga smurt fyrir sig. Súkkulaðið verður hitað í 30 lítra potti og við verðum þrisvar sinnum fleiri á vakt en á venjulegum kvöldum.“

Dögg Hjaltalín, verslunarstjóri bókabúðarinnar Máls og menningar, segir að fólk sé almennt farið að venja komur sínar meira í miðbæinn en áður.

„Það eru komnar margar gæðaverslanir í bæinn og traffíkin hefur aukist eftir því,“ segir hún. „Fólk er farið að gera meira eins og í gamla daga, að fara í bæinn og eyða góðum tíma þar í einu.“ sunna@frettabladid.is
gluggakaup Ungir sem aldnir leggja leið sína í miðborgina til þess að versla fyrir jólin. fréttablaðið/valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×