Innlent

Átta salerni fyrir 30 þúsund ferðamenn

Allt að þrjátíu þúsund heimsækja Hveravelli á tveimur mánuðum yfir sumarið. Svæðið þolir slíka umferð engan veginn eins og aðstæður eru þar núna.
Allt að þrjátíu þúsund heimsækja Hveravelli á tveimur mánuðum yfir sumarið. Svæðið þolir slíka umferð engan veginn eins og aðstæður eru þar núna.
Aðstaða til að taka á móti ferðafólki á Hveravöllum er ekki boðleg og umbætur þola enga bið, er mat Hveravallafélagsins sem sér um rekstur á svæðinu.

Hreinlætismál eru stærsti vandinn en aðeins átta salerni eru á staðnum fyrir þrjátíu þúsund manns sem heimsækja svæðið á aðeins tveimur mánuðum að sumarlagi. Það fyrsta sem margir gestir gera við komuna til Hveravalla er að standa í biðröð til að komast á klósett, enda er mesta umferðin bundin við fáeina klukkutíma yfir hádaginn.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt eftir málþing Hveravallafélagsins í október. Í hnotskurn eru úrlausnarefnin eftirfarandi að mati nefndarinnar: „Húsnæði er lítið og gamalt og þar með aðstaða til veitinga­rekstrar og gistingar, ekkert neysluhæft vatn er til staðar, rafmagn er framleitt með dísilvélum með til­heyrandi kostnaði, salernisaðstaða er ófullnægjandi, sorpmagn er verulegt og þarf að flytja til byggða, aðgengi og verndun hvera­svæðisins er ábótavant, tjaldstæði er of lítið, óviðunandi aðstaða er fyrir landverði og annað starfsfólk og fjár­magn til úrbóta er af skornum skammti.“

Hveravellir eru friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum og tilheyra Húnavatns­hreppi. Hveravalla­félagið, sem er nær alfarið í eigu sveitarfélagsins, sér um rekstur svæðisins.

„Þetta er vart bjóðandi öllu lengur,“ segir Stefán Haraldsson, atvinnuráðgjafi SSNV atvinnuþróunar, um ástandið á Hveravöllum. Hann segir að samkvæmt nýju deiliskipulagi og umhverfismati sveitarfélagsins eigi þær byggingar sem fyrir eru að víkja fyrir nýjum. „Í fullkomnum heimi yrði byggð þjónustumiðstöð sem hefði tekjur til að reka hreinlætisaðstöðu á Hveravöllum og allt sem henni tilheyrir. En á stað þar sem starfsemi er í gangi í tvo mánuði á ári þá er erfitt að reikna þetta dæmi, ef leggja á í þetta verulegar upphæðir.“

Stefán segir vandamálið felast í því að ekki er hægt að bæta aðstöðuna sem fyrir er þar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir því að hún fari.

Í samantekt Hveravallafélagsins segir að ef nauðsynleg uppbygging Hveravalla á að verða að veruleika þurfi að koma til samstarf ríkis, sveitarfélagsins, rekstraraðila á svæðinu og ferðaþjónustuaðila sem nýta svæðið með einhverjum hætti. Á málþinginu komu engar hugmyndir fram hvernig slíku samstarfi ætti að vera háttað.svavar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×