Erlent

Tveir frambjóðendur lausir úr varðhaldi í Hvíta-Rússlandi

Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan fangelsi í Minsk, þar sem mótmælendur eru í haldi.  nordicphotos/afp
Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan fangelsi í Minsk, þar sem mótmælendur eru í haldi. nordicphotos/afp
Hvíta-Rússland Tveimur forsetaframbjóðendum í Hvíta-Rússlandi, sem voru handteknir í mótmælum vegna úrslita kosninganna, hefur verið sleppt úr haldi. Fimm forsetaframbjóðendur eru enn í haldi ásamt hundruðum annarra mótmælenda.

Grigorí Kostusyev ræddi við fjölmiðla eftir að honum var sleppt í gær. Hann segir að leyniþjónustumenn hafi yfirheyrt hann „harkalega“ en ekki beitt hann líkamlegu ofbeldi. Þeir hafi viljað neyða hann til þess að fordæma aðra forsetaframbjóðendur sem tóku þátt í mótmælunum. Hann gerði það ekki. Frambjóðandanum Dmitrí Uss var einnig sleppt úr haldi.

Lögreglan í Minsk handtók 700 manns í mótmælunum á sunnudag. Fjölskyldur og vinir þeirra hafa safnast saman fyrir utan fangelsi og mótmæli hafa haldið þar áfram. Blaðamenn voru á meðal þeirra sem voru handteknir og kallaði samband blaðamanna í Rússlandi eftir því í gær að þeim yrði tafarlaust sleppt.

Alexander Lúkasjenkó forseti var endurkjörinn með um 80 prósentum atkvæða í forsetakosningum um helgina. Úrslit kosninganna hafa verið gagnrýnd og bæði Bandaríkin og Evrópusambandið fordæmdu handtökurnar í mótmælunum. - þeb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×