Erlent

Reynt að greiða úr flækjunni á flugvöllum í Evrópu

Flugvallarstarfsmenn víðsvegar um Evrópu berjast nú við að hjálpa þúsundum farþega heim fyrir jólin. Miklar vetrarhörkur víða um Evrópu hafa lamað samgöngukerfi álfunnar á sama tíma og fjöldi fólks er á faraldsfæti í jólafríinu, annað hvort á leið í frí eða á leið heim til sín fyrir jól.

Flugvallastjórar hafa legið undir mikilli gagnrýni fyrir að taka illa á málinu en margir flugvellir virðast illa undir veðrið búnir. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú bæst í hóp gagnrýnenda og segir að tafirnar séu óásættanlegar og megi ekki gerast aftur. Heathrow flugvöllur í London hefur orðið verst úti en frá því á laugardaginn var, þegar um 13 sentimetra djúpur snjór féll á einum klukkutíma, hefur þurft að aflýsa mörg hundruð ferðum, lítið hefur hinsvegar snjóað síðan þá og spyrja margir sig því hvað veldur þessum vandræðum.

Annarsstaðar gengur betur að eiga við aðstæðurnar en þegar allt fer úr skorðum á Heathrow, einum stærsta flugvelli heimsins, hefur það áhrif á flesta aðra velli í álfunni. Á Charles de Gaulle vellinum í París gistu fimm þúsund manns, og voru flestir á leið til Bretlands. Breski herinn hefur boðið fram aðstoð sína á vellinum við snjómokstur og annað, en flugvallaryfirvöld höfnuðu því boði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×