Innlent

Fækkar mest á Vestfjörðum

Íslendingum hefur fjölgað um 643 milli ára, og eru nú 318.236 talsins. Fjölgunin er um 0,2 prósent milli ára. Fólki hefur fækkað umtalsvert víða á landsbyggðinni. Mest er fólksfækkunin á Vestfjörðum, 3,2 prósent á einu ári, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Fólki fjölgaði um 0,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu frá 1. desember 2009 til 1. desember síðastliðins. Í dag búa 202.186 manns í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum, tæplega 64 prósent þjóðarinnar.

Fólki fjölgaði lítillega á Norður­landi eystra á tímabilinu, um 0,3 prósent. Í öðrum landshlutum fækkaði fólki milli ára.

Íbúum á Vestfjörðum fækkaði um ríflega 200 á tímabilinu, og voru þeir 7.129 talsins 1. desember síðastliðinn. Það er 3,2 prósenta fækkun. Það er meiri fólksfækkun en samanlagt síðustu fjögur ár á undan. Frá árinu 2006 hefur fólki á Vestfjörðum fækkað um samtals 4,6 prósent.

Nokkur munur er á þróuninni hjá körlum og konum á Vestfjörðum. Körlum hefur fækkað um 4,1 prósent milli ára en konum um 2,2 prósent.

Fólksfækkunin var um 1,2 prósent á Austurlandi frá 1. desember í fyrra fram til 1. desember síðastliðins. Þar virðist nú komið jafnvægi á fólksfjöldann eftir uppbyggingartímabil í kringum byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers.

Á síðustu árum hafði körlum fækkað mun meira en konum, en á árinu hefur fækkunin verið svipuð hjá kynjunum.

Á Suðurnesjum hefur fólki fækkað um 1,4 prósent frá 1. desember í fyrra. Í öðrum landshlutum var fólksfækkunin minni, á bilinu 0,1 til 0,3 prósent.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×