Innlent

Forsetinn viðstaddur vígslu sjálfbærustu byggingar veraldar

Frá athöfninni í Abu Dhabi. Forsetahjónin ásamt Norman Foster arkitekt byggingarinnar.
Frá athöfninni í Abu Dhabi. Forsetahjónin ásamt Norman Foster arkitekt byggingarinnar.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson var í morgun heiðursgestur við vígslu Masdar tækniháskólans í Abu Dhabi. Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að byggingin, sem er teiknuð af hinum heimsþekkta arkitekt Norman Foster, sé talin „sjálfbærasta bygging veraldar þar sem mengun og úrgangur eru komin niður að núll-markinu."

Ennfremur segir að krónprins Abu Dhabi, Mohammed bin Zayed Al Nahyan, hafi boðið Ólafi Ragnari til athafnarinnar vegna stuðnings forsetans frá upphafi við þá framtíðarsýn sem Masdar endurspeglar. „Tækniháskólinn er fyrsta byggingin sem vígð er í Masdarborg en henni er ætlað að varða veginn til sjálfbærrar framtíðar og sýna í verki hvernig hægt er að nýta nýja tækni til að draga úr og jafnvel koma í veg fyrir kolefnisútblástur og mengun um leið og allur úrgangur væri endurnýttur. Þar með væru send mikilvæg skilaboð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum."

Margir ráðamenn Abu Dhabi voru viðstaddir vígsluna og að henni lokinni sat forseti Íslands fund með þeim og forystumönnum Tækniháskólans þar sem rætt var um frekari áfanga á þessari braut að því er fram kemur í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×