Fótbolti

Munu íslenskir dómarar dæma í Skotlandi um helgina?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Magnús Þórisson við störf í Pepsi-deildinni í sumar.
Magnús Þórisson við störf í Pepsi-deildinni í sumar. Mynd/Anton
Skoska knattspyrnusambandið íhugar nú að kalla til dómara frá öðrum löndum, til að mynda Íslandi, til að dæma í Skotlandi um helgina.

Eins og Vísir fjallaði um í gær hafa skoskir knattspyrnudómarar ákveðið að boða til verkfalls um næstu helgi og eru því næstu leikir skosku úrvalsdeildarinnar í hættu.

Haft er eftir Sigurði Óla Þorleifssyni, formanni Félags deildardómara á Íslandi, í enskum fjölmiðlum að þetta hafi komið til tals hjá íslenskum dómurum.

„Við höfum verið að ræða þetta og ef okkur stendur til boða að fara til Skotlands og dæma þá er það í lagi samtakanna vegna. Við erum tilbúnir til að hjálpa skoskri knattspyrnu. Við höfum fengið grænt ljós frá KSÍ."

Skosku dómararnir eru óánægðir með þá gagnrýni sem þeir hafa hlotið fyrir störf sín á leiktíðinni.

Forráðamenn skoska knattspyrnusambandsins eru nú að leita sátta við dómarana en þangað til eru þeir að skoða möguleikann á því að fá dómara frá Írlandi og Norðurlöndunum til að hlaupa í skarðið.

„Við munum skoða möguleikann á því að fá dómara frá löndum þar sem ekki er verið að spila," sagði Stewart Rogan, framkvæmdarstjóri sambandsins. „Það gæti verið frá Írlandi eða Norðurlöndunum. Það eru ýmsir kostir sem standa til boða."

„Þetta verður ekki ódýrt enda ferðakostnaður talsverður við slíkar aðgerðir," bætti hann við.

Það eru aðeins dómarar í hæsta flokki sem hafa boðað til verkfalla og eru 20 leikir vegna þessa í hættu.








Tengdar fréttir

Skoskir dómarar ætla í verkfall

Samtök knattspyrnudómara í Skotlandi vilja fara í verkfall um næstu helgi eftir því sem fram kemur á vef Sky Sports í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×