Innlent

Hamborgartréð kemur úr Borgarfirðinum í ár

Ljósin verða tendruð á jólatrénu á Miðbakka Reykjavíkurhafnar næstkomandi laugardag klukkan fimm. Tréð hefur í daglegu talið verið kallað „Hamborgartréð" í gegnum árin en nú kann að verða breyting á því.

Í tilkynningu frá Faxaflóahöfnum segir að jólatréð á hafnarbakkanum eigi sér langa og merka sögu því félagsskapurinn Wikingerrunde í Hamborg, Þýskalandi hafi í 44 ár sent jólatré til Reykjavíkurhafnar. „Trénu hafa fylgt góðir gestir frá Hamborg en tilefni þessarar gjafar er táknrænn þakklætisvottur til íslenskra togarasjómanna sem gáfu svöngu fólki mat í höfninni í Hamborg á fyrstu árunum eftir seinni heimsstyrjöldina." Hins vegar ber svo við að félagið hefur nú að mestu hætt starfsemi enda fækkað í hópnum og því var afráðið að senda ekki tré til Reykjavíkur að þessu sinni.

Ágúst Ágústsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir að þessu sinni komi tréð einfaldlega úr Borgarfirðinum. Það gefur þó að hans sögn þýskum frændum sínum lítið eftir og er hið glæsilegasta, tíu metrar á hæð.

Þrátt fyrir þessa breytingu hafa stjórnendur Faxaflóahafna ákveðið að halda áfram þeirri venju að tendra ljósin á „Hamborgartrénu" á Miðbakka og bjóða viðskiptavinum og velunnurum að taka þátt í athöfninni. Hjálmar Sveinsson, stjórnarformaður Faxaflóahafna, flytur ávarp við þetta tækifæri og sendiherra Þýskalands á Íslandi, Hermann J. Sausen, flytur kveðjur frá Hamborg. Þá mun Þýsk-íslenska viðskiptaráðið ásamt félögum í Germaniu taka þátt í að undirbúa þennan viðburð og fjölmenna við tréð. Faxaflóahafnir bjóða gestum síðan upp á heitt súkkulaði og jólabakkelsi í Hafnarhúsinu en við tréð syngur telpnakór jólasöngva.

„Við hvetjum sem flesta til að koma á Miðbakkann og njóta stundarinnar en sérstaklega bjóðum við þeim sem á einhvern hátt tóku þátt í því að flytja fisk til Þýskalands á eftirstríðsárunum, og þá ekki síst togarasjómönnum," segir enn fremur í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×