Erlent

Gagnrýndi stjórn sósíalista á Spáni

Hundruð manna mótmæltu stefnu kaþólsku kirkjunnar þegar páfi kom til að vígja þessa sérstæðu kirkju Gaudis. nordicphotos/AFP
Hundruð manna mótmæltu stefnu kaþólsku kirkjunnar þegar páfi kom til að vígja þessa sérstæðu kirkju Gaudis. nordicphotos/AFP
Mikill mannfjöldi fylgdist með Benedikt XVI. páfa þegar hann vígði hina sérstæðu kirkju, Sagrada familia, sem setur svip sinn á Barcelona á Spáni.

Þegar páfi kom til kirkjunnar í gær biðu þar um 200 samkynhneigðir sem efndu til kossamótmæla gegn stefnu kaþólsku kirkjunnar, sem lítur samkynhneigð óhýru auga.

Stuttu síðar efndu hundruð kvenna til mótmælagöngu gegn kaþólsku kirkjunni vegna þess hve konum er almennt gert lágt undir höfði innan hennar og einnig vegna andstöðu kirkjunnar við getnaðarvarnir.

Páfi notaði hins vegar tilefnið til þess að gagnrýna spænsk stjórnvöld fyrir að standa ekki nægilega vel vörð um hefðbundið fjölskyldulíf. Stjórn Sósíalistaflokksins á Spáni hefur samþykkt lög sem heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Auk þess hefur stjórnin gert fólki auðveldara að fá bæði skilnað og fóstureyðingar.

Um það bil 250 þúsund manns mættu til að fylgjast með páfa og formlegri vígslu kirkjunnar, sem hefur verið í smíðum síðan árið 1892. Katalónski arkitektinn Antoni Gaudi, sem gerði nokkur helstu meistaraverk byggingasögunnar, vann að henni í meira en hálfa öld, en hann lést árið 1926. Stefnt er á að ljúka byggingu kirkjunnar árið 2026, þegar hundrað ár verða liðin frá andláti Gaudis.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×