Innlent

Ósátt við lög í Litháen sem varða réttindi samkynhneigðra

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Þingmaður Samfylkingarinnar vill að Alþingi Íslendinga lýsi vanþóknun á nýsamþykktum lögum litháíska þingsins sem banna upplýsingagjöf um réttindi samkynhneigðra.

Í síðustu viku tóku í gildi umdeild lög í Litháen sem banna meðal annars dreifingu á opinberum upplýsingum um réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans einstaklinga. Lögin hafa það markmið samkvæmt litháíska þinginu - að vernda ungmenni gegn skaðlegum opinberum upplýsingum.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa skorað á stjórnvöld í Litháen að afnema þessi lög þar sem þau brjóta - að mati samtakanna - gegn alþjóðlegum og svæðisbundnum mannréttindasamningum. Evrópuþingið telur einnig að lögin brjóti gegn lögum Evrópusambandsins um bann við mismunun.

Fyrir Alþingi Íslendinga liggur nú þingsályktunartillaga um að alþingi sendi heillaóskir til litháísku þjóðarinnar þar sem 20 ár er nú liðin frá því sjálfstæðisyfirlýsing Litháens var samþykkt af þjóðþingi landsins. Til stendur að forseti Alþingis fari opinbera heimsókn til Litháens af því tilefni.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók málið upp á Alþingi í gær og vill að forseti Alþingis taki undir áhyggjur Evrópuþingsins þar sem lögin skerða ennfremur tjáningarfrelsi og kynda undir fordóma.

„Ég tel mikilvægt að forseti lýsi þessari afstöðu því þessi löggjöf Litháa stríðir gegn þeim mannréttindum sem Alþingi Íslendinga hefur markvisst barist fyrir með margvíslegum réttarbótum til handa samkynhneigðum á síðastliðnum áratugum," sagði Sigríður Ingibjörg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×