Innlent

Þorvarður sá svart - ætlaði ekki að bana föður sínum

Valur Grettisson skrifar
Hæstiréttur.
Hæstiréttur.

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag gæsluvarðhald yfir Þorvarði Davíð Ólafssyni, sem réðist á föður sinn, Ólaf Þórðarson tónlistarmann.

Í úrskurði Hæstaréttar kemur fram að Þorvarður hafi játað að hafa ráðist á föður sinn. Lýsingar á árásinni sem finna má í úrskurðinum eru hryllilegar.

Þorvarður segist hafa neytt kókaíns áður en hann réðst á föður sinn á heimili hans fyrr í mánuðinum.

Hann segist ekki hafa ætlað að valda dauða föður síns heldur hafi hann algjörlega misst stjórn á sér og farið í einhverskonar óminnisástand af reiði.

Afleiðingarnar voru slíkar að faðir hans lá eftir í blóði sínu og hefur verið í lífshættu síðan þá.

Sjálfur segir Þorvarður í úrskurðinum að hann misst alla hugsun og bilast, séð svart og ekki muna alveg eftir atburðarrásinni, en það sem hann muni væri mjög ógeðslegt.

Hvað varðar tilefni árásarinnar þá virðist hann hafa haft miklar ranghugmyndir um föður sinn.

Í áverkavottorði, dagsettu 29. nóvember 2010, komi fram að Ólafur sé enn meðvitundarlaus og meðan svo er, sé hann áfram í lífshættu.

Þorvarður var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. desember í ljósi alvarleika málsins. Þá mun hann gangast undir geðrannsókn vegna árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×