Erlent

Shahla Jahled hengd í nótt

Shahla Jahled.
Shahla Jahled. MYND/AFP

Írönsk kona var hengd í nótt í Teheran en hún var sökuð um að hafa myrt eiginkonu frægs fótboltamanns. Shahla Jahled hefur setið í fangelsi í níu ár fyrir morðið en mannréttindasamtök víða um heim höfðu barist fyrir málstað hennar.

Samtök á borð við Amnesty International segja að Jahled hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð en hún játaði morðið í yfirheyrslum en dró síðan játninguna til baka ítrekað við réttarhöldin. Írönsk yfirvöld hafa verið sökuð um að hafa beitt pyntingum til þess að þvinga fram játningu hennar. Jahled bjó með fótboltamanninum Mohammad Khani þegar hún er sögð hafa myrt fyrstu eiginkonu hans.

Þau Jahled og Mohammad höfðu gengið í svokallað tímabundið hjónaband sem heimilt er samkvæmt íslömskum lögum. Slíkir ráðahagir geta verið til nokkura klukkustunda eða ára. Þetta kom í veg fyrir að maðurinn yrði dæmdur fyrir hórdóm, sem ströng viðurlög eru við.

Málið hefur vakið mikla athygli í Íran og fyrir utan landsteinanna og árið 2008 var dauðadómnum snúið við. Jahled var hinsvegar dregin fyrir rétt á ný í febrúar í fyrra og þá var dauðadómurinn staðfestur. Afp fréttastofan segir að aftakan í nótt sé sú 146 sem framkvæmd er í Íran á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×