Innlent

Um fimmtán sækja um stöðu upplýsingafulltrúa stjórnlagaþings

Erla Hlynsdóttir skrifar
Berghildur Erla vill sinna starfinu áfram
Berghildur Erla vill sinna starfinu áfram Mynd: Anton Brink

Umsóknarfrestur um starf upplýsingafulltrúa stjórnlagaþings rann út í gær. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu stjórnlagaþings hafa borist um fimmtán umsóknir. Vonir standa til að ráðið verði í stöðuna fyrir mánaðarmót, jafnvel strax í þessari viku.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, sem nú sinnir stöðunni, er meðal umsækjenda. Hún var ráðin tímabundið og án auglýsingar í septembermánuði. Berghildur Erla er fyrrverandi upplýsingafulltrúi Nýja-Kaupþings og síðar Arion banka, en þar áður starfaði hún sem fréttamaður á RÚV.

Gert er ráð fyrir að nöfn allra umsækjenda verði gerð opinber hið fyrsta.

Starf upplýsingafulltrúa stjórnlagaþings er fullt starf en ráðningin er tímabundin og miðast við sex til átta mánuði.

Í starfinu felst að hafa á hendi umsjón með vef sjórnlagaþings og annast ritstjórn hans. Upplýsingafulltrúi mun skipuleggja og annast kynningarstörf og upplýsingamiðlun fyrir væntanlegt stjórnlagaþing.Hann annast einnig samskipti við fjölmiðla og almenning um störf þingsins, og kemur að gerð kynningarefnis og frétta fyrir prent- og ljósvakamiðla.

Starfið var auglýst laust til umsóknar þann 3. nóvember.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun (helst framhaldsmenntun) á sviði er tengist sviðinu.
  • Víðtæka reynslu af fréttamennsku, fjölmiðlun og kynningarmálefnum.
  • Hafa ritstýrt og unnið með vefsíður fyrirtækis eða stofnunar.
  • Góð íslenskukunnátta.
  • Góð framkoma og eiga auðvelt með mannleg samskipti.
  • Eiga auðvelt með að vinna undir álagi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×