Innlent

Bjartsýn um olíuvinnslu á Drekanum

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra kvaðst á Alþingi í dag bjartsýn á að olíuvinnsla á Drekasvæðinu yrði að veruleika, jafnvel í stjórnmálatíð þeirra sem nú sitja á þingi.

Sú aukna áhersla sem norsk stjórnvöld hafa nú sett í að undirbúa olíuleit á Jan Mayen-hryggnum var tilefni fyrirspurnar Birkis Jóns Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag um hvað liði olíuleit Íslendinga á Drekasvæðinu.

"Því hér er um stórt mál að ræða fyrir íslenska þjóð, fyrir íslenskan ríkissjóð og fyrir okkar afkomendur og framtíðina," sagði Birkir Jón.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra minnti á að íslensk stjórnvöld væru þegar búin að tilkynna um að næsta olíuleitarútboð yrði á næsta ári. Hún sagði að samstarf við Norðmenn yrði aukið og dýpkað og hún hefði í því sambandi átt fund með olíumálaráðherra Noregs í vor. Þá væri stefnt að því að frumvarp um breytingar á skattalöggjöf í kringum olíuleit yrði lagt fram á yfirstandandi þingi.

"Og ég er afar bjartsýn fyrir framtíðarolíuvinnslu Íslendinga tengda Drekasvæðinu og tel að við eigum eftir að sjá hana verða að veruleika, jafnvel í okkar tíð sem stjórnmálamanna hér á þessu þingi," sagði Katrín.






Tengdar fréttir

Friðlýsa Jan Mayen en setja um leið milljarða í olíuleit

Norsk stjórnvöld hafa ákveðið að friðlýsa Jan Mayen. Á sama tíma hafa þau ákveðið að verja 3,4 milljörðum íslenskra króna næstu tvö árin til að undirbúa olíuboranir á norðurslóðum, þar á meðal á hafsvæðinu umhverfis eyna. Friðlýsingin gæti leitt til þess að þjónusta við olíuleit verði umfangsmeiri hérlendis en annars hefði orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×