Innlent

23 tillögur bárust í samkeppni um húsgögn í Hörpu

MYND/Arnþór

Opnaðar hafa verið tillögur í samkeppni um húsgögn í almenningsrými í Hörpu sem íslenskir arkitektar og hönnuðir gátu tekið þátt í. Alls bárust tuttugu og þrjár tillögur og dómnefnd er nú að vinna úr þeim að því er fram kemur í tilkynningu frá eignarhaldsfélaginu Portusi.

Vinningstillagan verður kynnt í Hörpu næstkomandi fimmtudag þar sem einnig verða kynnt nýsköpunarverðlaun SAF (Samtaka ferðaþjónustunnar). „Vinningshafinn hlýtur eina milljón króna í verðlaun en skilyrði var að húsgögnin yrðu framleidd hér á landi," segir ennfremur.

Eignarhaldsfélagið Portus stendur að samkeppninni í samstarfi við Hönnunarmiðstöð en í dómnefnd eiga sæti Osbjörn Jacobsen arkitekt frá Henning Larsen Architects, tilnefndur af Portusi, Soffía Valtýsdóttir, arkitekt frá Batteríinu, tilnefnd af Portusi, Katrin Ólína, hönnuður, frá Félagi vöruhönnuða tilnefnd af Hönnunarmiðstöð, Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaartikekt, frá Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, tilnefndur af Hönnunarmiðstöð og Þórunn Sigurðadóttir stjórnarformaður Ago, tilnefnd af Portusi sem gegnir formennsku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×