Fótbolti

Kasi-Jesper ætlar líka í fótboltann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jesper Nielsen.
Jesper Nielsen. Nordic Photos / Getty Images
Jesper „Kasi" Nielsen hefur undanfarin ár látið til sín taka í heimi handboltans í Danmörku og Þýskalandi og stefnir nú að vinna sömu sigra í knattspyrnunni.

Nielsen er nú aðaleigandi bæði AG Kaupmannahafnar og Rhein-Neckar Löwen en stefnan er að bæði þessi lið verði meðal sterkustu liða Evrópu á næstu árum.

Í gær var Guðmundur Guðmundsson ráðinn sem þjálfari Rhein-Neckar Löwen en hann var fyrr á árinu ráðinn sem íþróttastjóri beggja liða.

Samkvæmt dönskum fjölmiðlum hefur Nielsen nú hug á að byggja upp danskt knattspyrnustórveldi sem muni skáka FC Kaupmannahöfn.

Nielsen er mikill stuðningsmaður Bröndby og var fyrirtæki hans á sínum tíma aðalstyrktaraðili félagsins. En hann ætlar nú að byggja upp stórveldi frá grunni, líkt og hann gerði með AG Kaupmannahöfn.

„Við þurfum lið sem getur blandað sér í toppbaráttuna í 1. deildinni og treyst á að það eigi möguleika á að koma sér upp," segir Sören Colding, framkvæmdarstjóri AG, í samtali við danska fjölmiðla.

„Við erum komnir nokkuð langt á leið í ferlinu. Við höfum fengið grænt ljós frá stjórninni í AG til að halda áfram."

„Þegar við förum af stað með svona verkefni er það ljóst að við setjum okkur háleit markmið. Við leggjum líka mikið á okkur til að ná þeim. Í heimi knattspyrnunnar heitir það að komast í Evrópukeppnina og Meistaradeild Evrópu," sagði Colding.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×