Fótbolti

Sölvi missir líklega af báðum leikjum FCK gegn Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sölvi fagnar markinu sem hann skoraði gegn Rosenborg.
Sölvi fagnar markinu sem hann skoraði gegn Rosenborg. Nordic Photos / Getty Images

Allar líkur eru á því að Sölvi Geir Ottesen missi af báðum leikjum FC Kaupmannahafnar gegn spænska stórliðinu FC Barcelona í Meistaradeild Evrópu.

Sölvi Geir handleggsbrotnaði í leik FCK gegn Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni um helgina. „Því miður er það ekki mikið sem við getum gert," sagði Martin Boesen, læknir FCK.

„Sölvi er framhandleggsbrotinn og venjulega tekur það 5-6 vikur fyrir slíkt brot að jafna sig. Við erum að vinna að því að búa til spelku svo að Sölvi geti haldið sér í formi. Þegar hann getur byrjað aftur að æfa verður að koma í ljós hvenær sársaukinn minnkar," bætti hann við.

Sölvi mun samkvæmt þessu missa af leikjum FCK gegn Panathinaikos í næstu viku og svo báðum leikjunum gegn Barcelona sem fara fram 20. október og 2. nóvember.

Hann mun einnig missa af landsleik Íslands gegn Portúgal í undankeppni EM 2012 þann 12. október.

Þetta er einkar súrt í broti fyrir Sölva sem tryggði FCK þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með því að skora eina markið í 1-0 sigri gegn norska liðinu Rosenborg í síðari viðureign liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×