Innlent

Afstaða bænda getur skaðað samningsstöðuna

Stefán Haukur Jóhannesson
Stefán Haukur Jóhannesson Mynd/Stefán Karlsson
Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og formaður samninganefndar Íslands í aðildarviðræðum ESB, viðurkennir að afstaða bænda geti skaða samningsstöðu Íslands.

Í viðtali við helgarútgáfu Fréttablaðsins segir Stefán Haukur að samninganefndin hafi átt prýðilegt samstarf við Bændasamtökin. Í næstu viku er fjögurra daga fundur um landbúnaðarmál en Bændasamtölin eru í einum samningahópanna en þau hafa sagt að þau vilji ekki taka þátt í þessu ferli.

„Þau hafa gefið til kynna að þau muni ekki taka þátt í rýnifundum úti í Brussel, sem eru vonbrigði. Þetta þýðir að við þurfum að styðjast við þá krafta sem við höfum í landbúnaðarráðuneytinu og það fólk í utanríkisráðuneyti sem hefur tekið þátt í þessu á landbúnaðarsviði.

Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegra að hafa Bændasamtökin með enda búa þau yfir mikilli þekkingu. Ég vil ekki vera með getgátur um hvort þetta tefji fyrir, við vinnum bara eins og við getum. Þetta hefur ekki áhrif á rýniferlið núna, því það er ESB sem skýrir sína hlið í næstu viku. En á seinni fundunum, sem verða í lok janúar, þurfum við að gera grein fyrir íslenskri löggjöf og það er mikil vinna að undirbúa það.

Auðvitað hefði verið betra að hafa Bændasamtökin í því og ég vona að þau geri það. Við stefnum á að vera undirbúin fyrir þá fundi og ég á ekki von á öðru," segir Stefán Haukur við Fréttablaðið.

Hann segir að staðan geti því orðið lakari. „Hjáseta Bændasamtakanna getur komið niður á undirbúningi og því gæti staða okkar verið lakari en ella."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×