Erlent

Sex ár frá flóðbylgjunni í Indlandshafi

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Heimsbyggðin stóð á öndinni fyrir sex árum þegar 230 þúsund manns fórust í flóðbylgju sem skall á Asíu. Minningarathafnir hafa verið haldnar víða í dag.

Annar jóladagur fyrir sex árum breyttist í harmleik á einu augnabliki. Neðansjávar jarðskjálfti upp á 9,3 á richter í Indlandshafi olli mikilli flóðbylgju sem náði til um tólf ríkja við hafið og lagði fjölda bæja og þorpa í rúst. Skjálftinn var sá mesti sem mælst hefur á jörðinni í 40 ár.

Flóðbylgjan hreyf með sér fólk, hús, báta og önnur farartæki sem soguðust á haf út þegar bylgjan gekk til baka. Þegar upp var staðið var talið að um 230 þúsund manns hafi farist, bæði heimamenn og mikill fjöldi ferðamanna víðs vegar að úr heiminum. Íslenska þjóðin kom frændum sínum á Norðurlöndum til aðstoðar og sendi Icelandair þotu með hjúkrunarfólki og bráðaliðum til að flytja heim særða og syrgjandi. Þá veittu íslenskir Rauða kross liðar aðstoð á hamfarasvæðunum.

Árlega hafa ættingjar og vinir safnast saman víða við Indlandshaf og minnst látinna ástvina með látlausum bænastundum og minningarathöfnum. Um átta þúsund manns fórust á Tælandi, 48 þúsund á ströndum Sri Lanka og Indlands en lang flestir í Indónesíu þar sem 167 þúsund manns misstu lífið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×