Innlent

Rannsókn hafin á sprengingu

Rannsókn er hafin á sprengingunni sem varð í spennistöð álvers Alcoa á Reyðarfirði á laugardag. „Enn er ekkert vitað um orsakir sprengingarinnar," segir Guðmundur Helgi Sigfússon, slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar.

Fulltrúi lögreglu kemur að rannsókn málsins en ekkert er vitað um tjón vegna eldsins né hvaða áhrif hann muni hafa á framleiðslu álversins.

„Slökkvistarfið gekk ágætlega," segir Guðmundur. Um fimmtíu slökkviliðsmenn hafi tekið þátt í aðgerðunum.

Sprenging varð í spennistöð álversins og við sprenginguna varð eldur laus. Enginn slasaðist en rafmagn fór af álverinu.

Að sögn Ernu Indriðadóttur, framkvæmdastjóra upplýsingamála hjá Alcoa, tókst starfsmönnum með snarræði að ná tökum á ástandinu og byrjuðu að koma straumi á álverið upp úr klukkan sjö. Slökkviliðinu tókst svo að ráða niður­lögum eldsins á tíunda tímanum.

Guðmundur og Erna eru sammála um að svona sprengingar séu mjög óvenjulegar í álverum.- mmf






Fleiri fréttir

Sjá meira


×