Fótbolti

Guardiola nýtti rútuferðina vel - horfðu á leiki með Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúta Barcelona-liðsins sést hér koma að San Siro vellinum í Mílanó.
Rúta Barcelona-liðsins sést hér koma að San Siro vellinum í Mílanó. Mynd/AP
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, reyndi að gera það besta úr ferðamáta liðsins fyrir undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Inter sem fer fram í Mílanó í kvöld.

Vegna flugbannsins í Evrópu þurfti Barcelona að fara í 985 kílómetra rútuferð en liðið ferðaðist þessa leið í tveimur hlutum og gisti yfir nótt í Cannes. Alls voru leikmenn Barcelona í 14 tíma í rútunni.

„Við reyndum að nýta þessa fjórtán tíma í undirbúninginn fyrir leikinn og horfðum á leiki með Inter," sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi í gær.

„Við erum ekki að spila á móti einhverjum vitleysingum. Þeir eru lið sem er fullt af miklum keppnismönnum. Við viljum að sjálfsögðu gera allt til þess að vinna en við gætum alveg tapað því við erum að spila á móti einu af bestu liðunum í Evrópu sem hefur staðið sig frábærlega í Meistaradeildinni," sagði Pep Guardiola.

Barcelona vann öruggan sigur á Inter í nóvember en Pep Guardiola segir aðstæður í dag vera allt aðrar.

„Leikurinn í nóvember var spilaður fyrir löngu síðan og hann telur lítið. Það hefur mikið breyst síðan þá og Inter-liðið er með miklu meira sjálfstraust í dag," sagði Pep Guardiola.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×