Innlent

Kviknaði í tuskudýri út frá nýrri jólaseríu

Ljósaserían er af gerðinni Shining Blick og bræddi tuskudýrið og plastið í kringum perurnar. fréttablaðið/anton
Ljósaserían er af gerðinni Shining Blick og bræddi tuskudýrið og plastið í kringum perurnar. fréttablaðið/anton
Sprenging í fjólublárri ljósaseríu sem keypt var í Húsasmiðjunni í Skútuvogi um helgina varð til þess að það kviknaði í tuskudýri tveggja ára stúlku. Serían var í sambandi á gólfi svefnherbergis stúlkunnar, Mínervu Geirdal Freysdóttur, sem var í fastasvefni þegar atvikið átti sér stað, um hálf tvö á mánudagsnótt.

Jóhanna Geirdal, móðir stúlkunnar, segir seríuna ennþá hafa verið logandi þegar hún kom inn í herbergi dóttur sinnar, en hún varð vör við óvenju mikil læti í kettlingnum Loka, sem hljóp um íbúðina með miklum látum. Loki og Mínerva sofa saman í herbergi stúlkunnar og var kötturinn afar órólegur fyrir framan dyrnar.

„Stelpan var vakandi í rúminu þegar ég kom inn og það tók á móti mér þessi hrikalega lykt,“ segir Jóhanna. „Þegar mér varð litið á seríuna var ennþá kveikt á henni og bangsinn stóð í ljósum logum upp við hana.“

Mínerva hefur líklega hent tuskudýrinu sínu á seríuna, sem gerði það að verkum að eldur braust út. Perustæðin höfðu bráðnað en ljósin héldust kveikt þar til Jóhanna tók snúruna úr sambandi.

„Ég ætlaði fyrst að setja seríuna á jólatréð, sem er úr plasti. Það hefði verið skemmtilegur bruni,“ segir Jóhanna.  Auður Auðunsdóttir, rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar í Skútuvogi, segir að tegundin verði tekin strax úr sölu. „Við tökum þetta úr hillunum í einum grænum,“ segir hún. „Við fáum seríurnar hjá innlendum birgjum, en höfum einungis selt þetta í nokkrar vikur.“

Daníel Guðbrandsson, framkvæmdastjóri heildsölu Egilsson hf. sem er umboðsaðili fyrir Shining Blick-ljósaseríurnar hér á landi, hefur ekki heyrt um svona atvik áður. „Ég hef selt fleiri þúsund seríur úr þessari sendingu í mörg ár og ekki fengið neinar kvartanir til þess. En maður getur aldrei verið viss um að eitt eintak inn á milli geti ekki verið gallað,“ segir Daníel.

sunna@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×