Innlent

200 milljónir urðu að 129 þúsund krónum

Tannviðgerðir Tannlæknir á vegum landlæknis skoðaði tannviðgerðir sjúklinga mannsins árið 2006. Sá staðfesti fimm viðgerðanna sem nú er sagt að vanti.
Tannviðgerðir Tannlæknir á vegum landlæknis skoðaði tannviðgerðir sjúklinga mannsins árið 2006. Sá staðfesti fimm viðgerðanna sem nú er sagt að vanti.
Tannlæknir á Suðurnesjum hefur verið ákærður fyrir að svíkja rúmar 129 þúsund krónur út úr Tryggingastofnun (TR) með því að hafa rukkað fyrir tannviðgerðir sem hann ekki vann. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness í fyrradag. Verjandi mannsins, Gestur Jónsson hrl., segir málatilbúnað undarlegan og hefur gert kröfu um að málinu verði vísað frá dómi.

Þingfesting málsins á sér langan aðdraganda. TR kærði tannlækninn til lögreglu fyrir tryggingasvik árið 2006. Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum og var jafnvel talið, samkvæmt upplýsingum sem þeim voru veittar, að svikin næmu allt að 200 milljónum króna síðustu þrjátíu ár, uppreiknað til nóvember 2007. Samkvæmt ákærunni sem þingfest hefur verið er tannlækninum gefið að sök á hafa á árunum 2003 til 2006 svikið út rúmar 129 þúsund krónur vegna 34 tannviðgerða í ellefu einstaklingum. Sjúkratryggingar Íslands gera einkaréttar­kröfu í málinu um að tannlækninum verði gert að endur­greiða mest ríflega 23 milljónir króna en minnst 129.412 krónur.

Þá tóku forráðamenn Sjúkratrygginga Íslands þá ákvörðun fimm vikum áður en tannlækninum var birt ákæran að ekki yrði um að ræða frekari endurgreiðslur frá stofnuninni vegna tannlæknisverka hans.

„Þessi 23 milljóna króna krafa er ekki studd neinum haldbærum rökum, heldur áætluð út í loftið.“ segir Gestur Jónsson hæstaréttar­lögmaður, verjandi tannlæknisins. „Rannsóknin er búin að taka rúm fjögur ár og starfsmenn kæranda hafa opinberlega sakað tannlækninn um stórfelld fjársvik. Eftir öll þessi ár telur lögreglan, eftir að dómkvaddur sérfræðingur hafði skoðað umrædda sjúklinga, að ekki sé unnt að sjá merki um tannviðgerðir fyrir rúmar hundrað þúsund krónur. Alvarlegast er þó að ákæra er gefin út án þess að undir tannlækninn hafi verið bornir þeir reikningar sem haldið er fram að hann hafi framvísað ranglega. Hann telur sig hafa fullnægjandi skýringar á þeim öllum. Séu sakar­giftir ekki bornar undir sakborning er mál ekki fullrannsakað og svo er í þessu tilviki.“

Gestur segir að tannlæknir á vegum landlæknis hafi skoðað tannviðgerðir sjúklinganna árið 2006. Sá hafi staðfest að minnsta kosti fimm viðgerðanna sem nú er sagt að vanti.

„SÍ skrifuðu ráðherra bréf 4. nóvember þar sem sagt er frá því að búið sé að ákæra tannlækninn. Þar til í síðustu viku vissi hvorki ég né hann að ákæra hefði verið gefin út.“jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×