Erlent

Pútín lærir af kreppunni

Vladimír Pútín
Vladimír Pútín
Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, vill að Rússland og Evrópusambandið geri með sér fríverslunarsamning. Nauðsyn náins samstarfs er sá lærdómur, sem Pútín segist draga af heimskreppunni.

„Kreppan gerði það nauðsynlegt að endurmeta hlutina, taka áhættu og hugsa fram í tímann,“ skrifar Pútín í langri grein, sem birtist í gær í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung.

„Frá Lissabon til Vladivostok“ nefnist greinin, og þar segir hann ástæðu kreppunnar vera ójafnvægið í heiminum, þar sem einn heimshluti safnar lánum og kaupir neysluvörur í gríð og erg meðan aðrir framleiða ódýrar vörur og kaupa upp skuldir. Þetta fyrirkomulag hefur mistekist, segir Pútín.

Fleiri óvæntar fréttir hafa borist frá Rússlandi í vikunni, því Dmitri Medvedev, sem skipti við Pútín á embætti fyrir nokkrum árum og er nú forseti landsins, gagnrýndi á bloggsíðu sinni stjórnmálaflokk Pútíns, Sameinað Rússland, sem er stærsti og áhrifamesti flokkur landsins.

Stöðnun er farin að einkenna rússnesk stjórnmál vegna þess hve ráðandi flokkurinn er, segir Medvedev, og það er jafnslæmt fyrir ráðaflokkinn og fyrir stjórnarandstöðuna. - gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×