Innlent

„Þetta er pólitískur ruddaháttur af verstu sort“

Valur Grettisson skrifar
Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson.

Bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, Gunnari Birgissyni, var vísað út af fundi eftir bæjarstjórnarfund á þriðjudaginn þegar hefja átti vinnu að fjárhagsáætlun bæjarins. Gunnar fullyrðir þetta sjálfur í samtali við Vísi.

„Það var eftir bæjarstjórnarfundinn á þriðjudaginn þar sem ákveðið var að funda um fjárhagsáætlunina. Guðríður Arnardóttir sagði mér að hypja mig út af fundinum því þetta væru þeir tíu sem ætluðu að standa að fjárhagsáætlun bæjarins," segir Gunnar sem yfirgaf fundinn.

Hann er afar ósáttur en meðal þeirra sem sátu áfram fundinn, og hreyfðu ekki við mótbárum, voru samflokksmenn Gunnars, þar á meðal oddviti flokksins, Ármann Kr. Ólafsson.

Gunnar hafði áður tilkynnt að hann hugðist vinna eigin fjárhagsáætlun og skila henni fyrir jól. Í því skyni óskaði hann eftir því að fá aðstoð fjármálastjóra til þess að vinna áætlunina.

Gunnar segir að þeirri ósk hafi verið hafnað formlega af meirihluta bæjarstjórnar. Þá má hann ekki heldur fá aðgang að öðrum starfsmönnum bæjarins í því skyni að búa til áætlunina. Sjálfur fullyrðir Gunnar að hann hafi ekki ætlað sér að misnota eitt né neitt og bætir við:

„Hvernig á ég að rækja mínar skyldur sem bæjarfulltrúi og leggja fram þessar tillögur ef enginn má ræða við mig?"

Gunnar er sótillur út í bæjarfulltrúana og íhugar að leggja inn erindi til sveitarstjórnarmálaráðherra, sem er Ögmundur Jónasson. Gunnari þykir ekki eðlilegt að honum sé meinað að fá aðstoð starfsmanna bæjarins.

„Það er fáheyrt að svona gerist," segir Gunnar og bætir við: „Þetta er pólitískur ruddaháttur af verstu sort."

Bæjarstjórnin þarf að skila fjárhagsáætluninni fyrir 31. desember lögum samkvæmt. Til stendur að ljúka seinni umræðunni fyrir jól.

Sjálfur vonast Gunnar til þess að geta skilað sinni áætlun áður en seinni umferðin hefst.

Hann segir þó einsýnt að verkið muni taka lengri tíma í ljósi aðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×