Innlent

Dorrit kveikir á jólatré Kringlunnar

Dorrit fer í Kringluna á laugardaginn
Dorrit fer í Kringluna á laugardaginn Mynd: Vilhelm Gunnarsson
Frú Dorrit Moussaieff mun tendra ljósin á jólatré Kringlunnar við hátíðlega áthöfn á laugardaginn klukkan þrjú. Við sama tækifæri hefst formlega góðgerðarsöfnun á jólapökkum undir jólatréð.

Frostrósir ásamt Stúlknakór Reykjavíkur mun syngja við undirleik hljómsveitar og strengjakvartetts. Sveppi og jólasveinar mæta á staðinn og heilsa upp á börnin.

Jólapakkasöfnun Kringlunnar í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands fyrir börn er árviss viðburður á aðventunni. Landsmenn allir eru hvattir til að setja pakka undir jólatré Kringlunnar sem staðsett er á fyrstu hæð hússins.

„Íslendingar hafa tekið þessari söfnun afar vel og í fyrra gáfu viðskiptavinir Kringlunnar yfir 5000 gjafir í söfnunina. Þessum gjöfum er deilt út af Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni til fjölskyldna sem hafa úr litlu að moða fyrir jólin. Starfsfólk Mæðrastyrksnefndar og Fjölskylduhjálparinnar metur þörfina mjög mikla og á mörgum heimilum gera þessar gjafir gæfumuninn á jólahátíðinni," segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar

Við jólatréð í Kringlunni verður aðstaða til að pakka inn gjöfum sem fara eiga undir tréð. Skapast hefur skemmtileg hefð hjá mörgum fjölskyldum að kaupa „eina gjöf til viðbótar" þegar farið er í Kringluna, pakka henni inn á staðnum og setja undir jólatréð.

Íslandspóstur býður þeim sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins að koma pökkum í söfnunina í Kringlunni, án endurgjalds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×