Innlent

Stjórnarformaður gagnrýnir veislur í Hellisheiðarvirkjun

Orkuveita Reykjavíkur hefur lánað veislusal Hellisheiðarvirkjunar til veisluhalda starfsfólks án endurgjalds. 
fréttablaðið/vilhelm
Orkuveita Reykjavíkur hefur lánað veislusal Hellisheiðarvirkjunar til veisluhalda starfsfólks án endurgjalds. fréttablaðið/vilhelm
Innri endurskoðandi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og arkitekt Hellisheiðarvirkjunar héldu báðir brúðkaupsveislur í móttökusal Hellisheiðarvirkjunar án endurgjalds. Veislurnar voru haldnar 2007 og 2008.

Innri endurskoðandi OR fékk reikning frá fyrirtækinu upp á 181.500 krónur fyrir veitingar í veislunni, en samkvæmt upplýsingum frá OR var sá reikningur ekki sundurliðaður.

Fjöldi gesta var 31 og boðið var upp á fjögurra rétta matseðil, þar á meðal humar og hreindýra­­­­­­steik, ásamt víni. Gerir það um 5.800 krónur á hvern gest. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, vill þó benda á að þetta svari til um 9.000 króna á mann í dag.

„Ekki er að sjá að um einhverja „sérmeðferð“ hafi verið að ræða. Samþykki forstjóra lá fyrir og allur útlagður kostnaður fyrirtækisins var innheimtur,“ segir Eiríkur.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnar­formaður OR, segir að komi í ljós að um óeðlilega fyrirgreiðslu hafi verið að ræða séu atvikin mjög óheppileg.

„Við erum búin að taka mjög skýrt á öllum svona málum og þetta á að vera orðið eðlilegt. En það tekur smá tíma að vinda ofan af þessu,“ segir Haraldur Flosi. „Það er stefnan að svona lagað heyri sögunni til og verið er að reyna að finna réttan takt í þessum málum.“

Hinn 12. janúar árið 2008 hélt arkitekt Hellisheiðarvirkjunar brúðkaup sitt í salnum án endurgjalds og gaf þáverandi forstjóri, Hjörleifur Kvaran, leyfi fyrir veislunni. Hjörleifur segist halda að arkitektinn hafi greitt allan kostnað. „Ég get staðfest að ég heimilaði einum aðila að halda brúðkaupsveislu. En það gekk svolítið mikið á til að heimila það. Ég var almennt á móti því en ég gaf mig nú,“ segir Hjörleifur. Spurður hvort OR hafi komið til móts við arkitektinn varðandi kostnað, segist Hjörleifur ekki halda að svo hafi verið.

- sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×