Erlent

The Economist segir tímabært að Ítalir losi sig við Berlusconi

Hið virta tímarit The Economist segir að tími sé til kominn að Ítalir losi sig við Silvio Berlusconi forsætisráðherra sinn.

The Economist hefur lengi haft horn í síðu Berlusconi og viðurkennir það í nýlegum leiðara þar sem ítalska þjóðin er hvött til að losa sig við hann.

Tímaritið segir að Berlusconi hafi haft einstaka hæfileika til að lifa af í ítölskum stjórnmálum en nú sé kominn tími til að losa sig við þessa gömlu þrjósku geit eins og það er orðað.

Röð hneykslismála frá kynlífi með stúlku undir lögaldri til dómsorðs um tengsl við mafíuna á Sikiley hafa hrjáð Berlusconi að undanförnu.

Stuðningsmenn Berlusconi hafa kennt fjölmiðlum, saksóknurum, erlendum aðilum og höfuðsandstæðingi hans í stjórnmálum Gianfranco Fini um erfiðleika foringjans. Þeir benda á að Ítalíu er ekki spyrt saman við Grikkland, Spán og Portúgal. The Economist segir að það sé að þakka hæfileikum fjármálaráðherra landsins.

Economist segir að nauðsynlegt sé að losna við Berlusconi því hann er ekki orðinn neitt annað en gamall graðnagli sem hangi á völdum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×