Innlent

Hvað þýðir þessi aðlögun?

Utanríkisráðherra segir að ekki verði gerðar neinar breytingar fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Utanríkisráðherra segir að ekki verði gerðar neinar breytingar fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Mynd/Anton Brink

Ísland er í aðlögun að Evrópusambandinu, það er að minnsta kosti afstaða Evrópusambandsins. En hvað þýðir þessi aðlögun?

Mikið hefur verið rætt um að Ísland sé ekki í aðildarviðræðum við Evrópusambandið heldur í aðlögunarviðræðum. Þeir sem eru með aðild og þeir sem eru á móti nota sitt hvort hugtakið um þessar viðræður við Evrópuambandið og hafa andstæðingar aðildar sagt að Ísland sé í aðlögunarviðræðum. Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur t.d sagt að aðlögun að ESB sé ekki það sem Alþingi samþykkti þegar samþykkt var að sækja um aðild. Og hefur hann viljað stöðva viðræðurnar á þessari forsendu.

En erum við í aðlögun að Evrópusambandinu? Og hvað þýðir það að Ísland sé í aðlögunarviðræðum og er það endilega slæmt?

Í áliti Evrópusambandsins til viðræðna við Ísland segir orðrétt: „Viðurkenning Íslands á réttindum og skuldbindingum sem leiðir af regluverkinu getur kallað á sérstaka aðlögun að því og leitt, í undantekningartilvikum, til aðlögunarráðstafana sem verður að skilgreina á meðan aðildarviðræðum stendur."

Þá er víða í þessu skjali gert ráð fyrir aðlögun og orðið kemur oft fyrir. T.d segir að Ísland verði að leggja reglulega fram skriflegar upplýsingar um framvindu á aðlögun löggjafar að regluverkinu.

Hins vegar segir þar að ekki sé nauðsynlegt að fastsetja nákvæmar tæknilegar aðlaganir að regluverkinu meðan á aðildarviðræðunum stendur. Það verði gert í samstarfi við Ísland og samþykkt af stofnunum ESB með góðum fyrirvara með það að markmiði að þær taki gildi á aðildardeginum.

Hvað þýðir þetta fyrir íslenskan landbúnað? Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðarráðuneytinu er ljóst að ein veigamesta breytingin felst í uppsetningu nýs styrkjakerfis og eftirlits með því, en stofna þarf nýja stofnun sem mun fara með öll mál sem snertir stjórnun á styrkjakerfinu og markaðsmálum. Þá þarf að setja upp og þróa samræmt stjórnunar- og eftirlitskerfi í landbúnaði. Jafnframt þarf að setja upp upplýsingakerfi sem styrkjakerfið byggir á og mun hin nýja greiðslustofnun annast kerfið. Þá þarf að ráðast í margvíslegar lagabreytingar með þeim frávikum sem tekst að semja um.

Ekki verði gerðar breytingar fyrr en eftir þjóðaratkvæði

Á inngöngudeginum, þ.e þegar aðild tekur gildi ef þjóðin samþykkir aðild þarf að vera búið að breyta lögum og reglum í samræmi við þetta, en ekkert af þessu þarf að vera búið að taka gildi löngu áður. Og hin opinbera afstaða utanríkisráðherra er að ekki verði gerðar neinar breytingar fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Embættismenn sem fréttastofa hefur rætt við hafa hins vegar efasemdir um að það sé yfirleitt hægt og sumir eru þeirrar skoðunar að þetta komi til með að seinka aðild. Það er, ef að framfylgja á þessari opinberu stefnu að undirbúa breytingar í samræmi við aðlögun án þess að þær komi til framkvæmda, t.d með hinni nýju greiðslustofnun, þá fari langur tími í það að koma þessu í gang eftir að aðild hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem seinki aðild óumflýjanlega.

Í raun og veru liggur ekki fyrir til hlítar hvernig aðlögunin mun birtast í íslenskum landbúnaði, en það ræðst af fundum sem fram fara á næstunni með embættismönnum ESB. Í næstu viku munu fara fram rýnifundir í Brussel þar sem sérfræðingar ESB munu skýra sérstaklega reglugerðir Evrópusambandsins í landbúnaði. Í janúar næstkomandi á síðan að liggja fyrir hver munurinn er á löggjöf Íslands og ESB og hverju þarf að breyta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×