Erlent

Bandaríkjamenn dauðhræddir við diplomatapósta

Óli Tynes skrifar
Julian Assagne stofnandi Wikileaks.
Julian Assagne stofnandi Wikileaks.

Bandarísk stjórnvöld eru nú að búa bandalagsþjóðir sínar undir leka á tæplega þrem milljónum tölvupósta sem hafa farið á milli utanríkisráðuneytisins og sendiráða Bandaríkjanna undanfarin ár. Póstarnir verða birtir á vefsíðu Wikileaks.

Reynslan sýnir að menn eru gjarnir á að halda að tölvupóstar séu einkamál. Þess vegna er búist við að í tölvupóstum utanríkisráðuneytisins og sendiráðanna sé talað tæpitungulaust um menn og málefni. Það má því búast við að eftir birtingu póstanna verði margir þjóðarleiðtogar og stjórnmálamenn sármóðgaðir út í Bandaríkin.

Sky fréttastofan í Bretlandi segir að sendiherra Bandríkjanna þar í landi hafi heimsótt bæði forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið þar í landi vegna málsins. Menn velta fyrir sér hvort einhver orð hafi fallið um breska framámenn sem ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af.

Tim Marshall fréttastjóri erlendra frétta hjá Sky segir að birtingin sé hugsanlega pólitísk bomba sem eigi eftir að koma Bandaríkjamönnum illa. Jafnvel enn verr en fyrri lekar á Wikileaks um stríðsreksturinn í Írak og Afganistan. Þeir hafi fljótlega dottið út úr fréttum. Fjölmiðlar í löndum þar sem hnýtt sé í leiðtoga séu hinsvegar ekki líklegir til þess að gleyma fljótt persónulegum móðgunum við þá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×