Enski boltinn

Barton er ánægður með lífið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joey Barton í leik með Newcastle.
Joey Barton í leik með Newcastle. Nordic Photos / Getty Images
Joey Barton, leikmaður Newcastle, segist vera ánægður með lífið og tilveruna en hann hefur gengið í gegnum ýmislegt á síðustu árum.

Barton hefur verið þekktur slagsmálahundur og hefur til að mynda mátt dúsa í fangelsi fyrir líkamsárás. Hann var einnig seldur frá Manchester City á sínum tíma eftir að hann lúskraði á liðsfélaga sínum.

En í dag segist hann vera breyttur maður. Hann hefur átt við meiðsli að stríða í vetur en Newcastle vann sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á ný í vor. Hann vonast til að hann geti komið knattspyrnuferlinum aftur á beinu brautina á næsta tímabili.

„Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir mig sem knattspyrnumann en frábært ár fyrir mig persónulega," sagði Barton við enska fjölmiðla.

„Ég er mjög ánægður með lífið mitt í dag og þá sem ég umgengst. Það eru góðar fréttir fyrir Newcastle því Joey Barton er ágætur knattspyrnumaður þegar hann er ánægður og glaður."

Hann á einnig von á því að sumarið sem er nú framundan verði betra en síðustu tvö.

„Í fyrra féllum við úr úrvalsdeildinni og ég framtíðin mín var í óvissu. Fyrir tveimur árum var ég á leið í fangelsi. En ég er betri maður í dag og get verið sáttur við sjálfan mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×