Innlent

Niðurlagning Varnarmálastofnunnar í uppnámi

Valur Grettisson skrifar
Alþingi. Framsóknarflokkurinn hefur óskað eftir fundi vegna Varnamálastofnunnar í dag.
Alþingi. Framsóknarflokkurinn hefur óskað eftir fundi vegna Varnamálastofnunnar í dag.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa farið fram á fund með utanríkismálanefnd klukkan þrjú í dag vegna málefna Varnarmálastofnunnar. Hana á að leggja niður um áramótin en sérstök verkefnastjórn vinnur að því að leysa hana upp. Meðal annars á hún að færa verkefni stofnunarinnar í önnur ráðuneyti og ákveða örlög þeirra fimmtíu starfsmanna sem þar starfa.

„Við fengum þær upplýsingar fyrir um tíu dögum síðan að það væri algjör upplausn í verkefnastjórninni," segir Sigurður Ingi Jóhannsson, starfandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins um óeiningu í verkefnastjórninni sem hann vill meina að stefni framtíð þeirra sem hjá stofnunni starfa í algjört uppnám.

Sigurður fullyrðir að þessi óeining innan verkefnastjórnarinnar lýsi sér þannig að ráðuneytin rífist um það hver skal fá hvað. Og um það sé harðlega deilt.

Sjálfur segir Sigurður Ingi að það sé knappur tími til stefnu ætli ríkisstjórninni að takast að leysa stofnunina upp með farsælum hætti.

Þá gagnrýnir Sigurður einnig fá svör varðandi varnarmálaöryggisstefnu Íslendinga.

„Maður þarf beinlínis að hrópa hvar öryggismálastefna Íslendinga sé, og hvar er utanríkismálastefnan?" spyr Sigurður Ingi sem þykja svörin loðin.

Hann bætir svo við að málið sé í algjörri upplausn.

Við þetta bætist hörð gagnrýni Fréttablaðsins í dag. Meðal annars skrifaði ritstjóri blaðsins, Ólafur Stephensen, harðorðan leiðara með yfirskriftinni: „Varnarlaus gegn klúðri."

Þar skrifaði Ólafur meðal annars:

„Niðurlagning Varnarmálastofnunar virðist ætla að verða hið mesta klúður. Stofnunin verður lögum samkvæmt lögð niður eftir þrjár vikur. Eins og fram kemur í fréttaskýringu hér í blaðinu í gær hefur enn ekki verið ákveðið hvaða stofnanir taka þá að sér verkefni hennar. Málið er enn statt á sama stað og síðastliðið vor, þegar frumvarp um að leggja niður stofnunina var lagt fram."

Einnig greinir Vísir frá því í dag að fyrrverandi forstjóri Varnarmálastofnunnar, Ellisif Tinna Víðisdóttir, hafi sagt í samtali við bandaríska sendiráðið, að hún efaðist um að stofnunin yrði leyst upp á ábyrgan hátt þar sem hún teldi að ákvörðunin væri einungis tekin til þess að sefa þingflokk VG.

Þetta kom fram í pósti sem Wikileaks lak út frá sendiráði Bandaríkjanna hér á landi og er dagsettur í desember 2009.


Tengdar fréttir

Varnarlaus gegn klúðri

Niðurlagning Varnarmálastofnunar virðist ætla að verða hið mesta klúður. Stofnunin verður lögum samkvæmt lögð niður eftir þrjár vikur. Eins og fram kemur í fréttaskýringu hér í blaðinu í gær hefur enn ekki verið ákveðið hvaða stofnanir taka þá að sér verkefni hennar.

Segir Varnarmálastofnun lagða niður í verðlaunaskyni fyrir ESB

Í skjölum Wikileaks, sem voru birt í Fréttablaðinu í dag, kemur fram að sendiherra Bandaríkjanna hér á landi, Carol Van Woorst, fullyrðir að Ellisif Tinna Víðisdóttir, sem var forstjóri Varnamálastofnunnar, hafi sagt í samtali við sendiráðið, að hún teldi að stofnunin væri lögð niður til þess að verðlauna Vinstri græna vegna stuðnings við ESB umsóknina.

Wikileaks: Bandaríkin börðust gegn lokun Varnarmálastofnunar

Bandarísk stjórnvöld beittu Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra miklum þrýstingi til að reyna að koma í veg fyrir að Varnarmálastofnun yrði lögð niður. Þetta kemur fram í leyniskjölum sem lekið var til Wikileaks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×