Innlent

Stjórnlagaþing kostar allt að 700 milljónum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Inni í tölunni er kostnaður vegna kosninganna sem fram fóru á laugardaginn.
Inni í tölunni er kostnaður vegna kosninganna sem fram fóru á laugardaginn.
Kostnaður við stjórnlagaþingið, sem til stendur að hefjist í febrúar, gæti orðið á bilinu 564 til 704 milljónir miðað við núverandi áætlanir. Í þessari tölu er meðtalinn kostnaður vegna kosninganna sem fram fóru á laugardaginn, stjórnlaganefnd, þjóðfund og stjórnlagaþingið sjálft.

Þetta er umtalsvert hærri tala en gengið var út frá við afgreiðslu laganna um stjórnlagaþing í júní síðastliðnum. Þá var byggt á því mati fjármálaráðuneytisins að heildarkostnaður vegna fyrrgreindra liða gæti orðið á bilinu 390 til 480 milljónir króna.

Kostnaðurinn við stjórnlagaþingið mun þó að sjálfsögðu ekki ráðast fyrr en að því loknu. Gert er ráð fyrir því að þingið starfi í tvo mánuði og gera áætlanir ráð fyrir að kostnaðurinn verði þá um 564 milljónir króna. Ef Alþingi veitir stjórnlagaþingi heimild til að starfa tveimur mánuðum lengur, eins og lög um stjórnlagaþingið gera ráð fyrir, mun kostnaðurinn aukast um 140 milljónir.

Inni í kostnaðinum við þingið sjálft er launakostnaður þingmanna. Þingmenn fá greitt þingfarakaup, um 520 þúsund krónur, en forseti stjórnlagaþings fær 855 þúsund krónur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×