Fótbolti

Sanngjarnt að bera Messi saman við Maradona

Elvar Geir Magnússon skrifar
Carles Puyol í baráttunni í gær.
Carles Puyol í baráttunni í gær.

Carles Puyol segir að Börsungar muni ekki ofmetnast þrátt fyrir stórsigurinn gegn Stuttgart í Meistaradeildinni í gær. Liðið flaug í átta liða úrslitin en dregið verður á morgun.

„Við þurfum að hafa fætur á jörðinni því það er margsannað að þú þarft bara að eiga einn slæman dag og þú ert úr leik," sagði fyrirliðinn Puyol.

Lionel Messi átti stórleik í gær. „Það er eiginlega fáránlegt hvað hann er að gera. Hann er ótrúlegur," sagði Thierry Henry, samherji Messi. Christian Gross, þjálfari Stuttgart, segist ekki í vafa um að Messi sé sá besti í heimi.

„Hans hæfileikar eru ótrúlegir. Ég tel sanngjarnt að bera hann saman við Diego Maradona. Við byrjuðum leikinn vel en gátum ekki stöðvað Messi á mikilvægum augnablikum," sagði Gross eftir leik.

Auk Barcelona verða Manchester United, Arsenal, Inter, Lyon, Bordeaux, CSKA Moskva og FC Bayern í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×