Um 500 manns eru saman komnir fyrir utan Seðlabanka Íslands á Arnarhóli þar sem tilmælum bankans og FME varðandi vexti sem gengistryggðu lánin eigi að bera er mótmælt. Fólkið framkallar mikinn hávaða, með búsáhöldum, trommum og Vuvuzela lúðrum sem hrellt hafa áhorfendur HM undanfarinn mánuð.

Mótmælin fóru í fyrstu friðsamlega fram en nú hefur hópur fólks tekið sér stöðu við dyr bankans og ber þær með alls kyns verkfærum. Lögregla hefur enn ekkert látið sjá sig.