Innlent

Gerði fyrst og fremst það sem embættismenn lögðu til

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason. Mynd/GVA

„Það var mjög eðlilega að þessu máli staðið af minni hendi að öllu leyti," segir Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, í samtali við Fréttablaðið. „Málið kemur til kasta ráðuneytisins vegna þess að það nást ekki samningar. Það hafði alltaf verið gengið út frá því að semja um starfslok á milli Barnaverndarstofu og fólksins. Það var forsendan fyrir uppsögninni og gefin fyrirheit um það þegar Barnaverndarstofa segir upp samningnum," segir Árni Páll.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að þingmenn Norðvesturkjördæmi hafi þrýst á Árna Pál að ganga frá 30 milljóna samkomulagi við rekstraraðila meðferðarheimilisins Árbótar fyrr á þessu ári.

Niðurstaða samningaviðræðna hafi verið að greiða hjónunum 30 milljónir, en Árna Páli hafi þótt óverjandi að leggja svo mikið á Barnaverndarstofu og hafi þess vegna beitt sér fyrir því að fá aukafjárveitingu fyrir meirihluta upphæðarinnar.

„Það þurfti að semja um málið. Og það var ráðlegging minna embættismanna að ganga frá málinu með þessari upphæð. Þeir leggja fram þessa tillögu á faglegum forsendum og ég sótti frá fjármálaráðuneytinu vilyrði um stuðning við aukafjárveitingu upp á átján milljónir og taldi mjög æskilegt að ljúka málinu þannig," segir hann.

Spurður hvort ekki hefði verið eðlilegt að leita eftir áliti frá Ríkislögmanni um hvort greiðsluskylda væri fyrir hendi segir Árni: „Ég er lögfræðingur sjálfur og get alveg lesið hvað stendur í þessu uppsagnarákvæði. Það er ekki ótvírætt - langt því frá. Rökin fyrir uppsögninni voru forsendubrestur, en það var ekki ótvírætt að hún stæðist. Embættismenn í félagsmálaráðuneytinu voru eindregið þessarar skoðunar. Ég tók enga ákvörðun í þessu máli og átti aldrei hugmynd að nokkru skrefi aðra en þá sem mínir embættismenn lögðu til, nema þegar ég ákvað að neita að sætta mig við að það færu 30 milljónir af barnaverndarstarfi í landinu í uppgjörið og heimtaði að það kæmi aukafjárveiting."

Árni Páll greinir í tölvupósti til ráðuneytisstjóra síns frá því að kjördæmisþingmenn hafi beitt hann þrýstingi vegna málsins. „Þeir hafa svo sem allar heimildir til þess. Það er bara mitt að standa klár á ákvörðuninni. Það þýðir ekkert að kveinka sér undan því. Aðalatriðið er þetta: Jú jú, það var þrýstingur en hann hafði engin óeðlileg áhrif á niðurstöðuna. En það eru ýmsar ástæður fyrir því að ég vil að landið sé eitt kjördæmi og þetta er ein af þeim ástæðum."


Tengdar fréttir

Létu undan þrýstingi kjördæmisþingmanna

Þrýstingur frá þingmönnum Norðausturkjördæmis varð til þess að félagsmálaráðuneytið ákvað að ganga til samninga við rekstraraðila meðferðar­heimilisins Árbótar um bótagreiðslur. Þetta segir Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, berum orðum í tölvupósti sem Fréttablaðið hefur fengið í hendur frá ráðuneytinu.

Upphæðin hvergi útskýrð

Í þeim gögnum sem Fréttablaðið hefur undir höndum er hvergi að finna faglegan rökstuðning fyrir þeirri 30 milljóna króna greiðslu sem stjórnvöld ákváðu að greiða eigendum meðferðarheimilisins Árbótar í Þingeyjarsýslu vegna starfsloka heimilisins.

Sjálfstæðar stofnanir eiga að vera lausar við pólitík

Þingmenn að norðan beittu sér fyrir því að samið yrði um bætur til hjónanna á meðferðarheimilinu Árbót. Samningaviðræður um það hófust þremur mánuðum fyrr en stjórnvöld hafa fullyrt að því fram kemur í Fréttablaðinu í dag. Stjórnsýslufræðingur segir að stofnanir á borð við Barnaverndarstofu eiga að vera sjálfstæðar undan pólitík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×