Erlent

Stúdentaóeirðir í Lundúnum

Óli Tynes skrifar

Tugþúsundir stúdenta eru aftur komnir til mótmæla í Lundúnum og átök hafa orðið milli þeirra og lögreglunnar. Stúdentarnir eru að mótmæla þreföldun skólagjalda í háskólum landsins. Þeir gengu yfir Trafalgartorg og reyndu að komast að Downingstræti 10, embættisbústað Davids Cameron forsætisráðherra. Þar var fyrir mikið lögreglulið sem stöðvaði gönguna. Þar kom til einhverra stympinga og meðal annars ráðist á lögreglubíl og hann stórskemmdur.

Yfir 50 þúsund stúdentar komu saman í höfuðborginni fyrir hálfum mánuði, einnig til að mótmæla hækkun skólagjalda. Þau enduðu með miklum óeirðum og handtökum eftir að mótmælendur ruddust inn í höfuðstöðvar Íhaldsflokksins og lögðu þar allt í rúst.

Bæði lögreglumenn og mótmælendur slösuðust. Átján ára drengur á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisvist fyrir að fleygja slökkvitæki fram af húsþaki. Það lenti rétt hjá lögregluþjóni sem var á götunni fyrir neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×