Fótbolti

Sergio Ramos: Bað ekki um rauða spjaldið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sergio Ramos, leikmaður Real Madrid, segir að það hafi ekki verið viljandi gert að hann fékk rautt spjald í leiknum gegn Ajax í Meistaradeild Evrópu í gær.

Það var skrautleg uppákoma undir lok leiksins þegar að þeir Xabi Alonso og Ramos fengu báðir sína síðari áminningu í leiknum fyrir tafir og þar með rautt.

Real vann leikinn, 4-0, og því engin ástæða til að tefja leik. Alonso var að taka aukaspyrnu og Ramos markspyrnu og báðir tóku sér drjúgan tíma til að taka spyrnurnar með þeim afleiðingum að dómara leiksins var engra annarra kosta völ en að gefa þeim áminningu.

Real er öruggt með efsta sæti riðilsins og munu félagarnir nú missa af leiknum gegn Auxerre í lokaumferð riðlakeppninnar. Leikurinn er þýðingarlaus en Ramos og Alonso munu nú fara í 16-liða úrslitin með hreinan skjöld.

„Við vorum ekki að biðja um spjöldin. Dómarinn hefði getað sleppt því að reka okkur út af miðað við hver staðan var í leiknum. En hann rak mig af velli og lengra nær það ekki."

Jose Mourinho kom sér undan því að svara spurningum hvort að hann hafi gefið leikmönnunum fyrirmæli um að næla sér í rautt spjald.

„Ég ræddi við marga leikmenn í leiknum, ekki bara Ramos og Alonso. Sögurnar selja en það mikilvæga er að við unnum 4-0 og spiluðum frábærlega. Við skulum frekar tala um það en ekki eitthvað annað," sagði Mourinho eftir leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×