Innlent

Kjör og réttindi verða óbreytt

Málið varðar 2.500 manns sem þurfa þjónustu vegna fötlunar og 1.500 starfsmenn.
fréttablaðið/valli
Málið varðar 2.500 manns sem þurfa þjónustu vegna fötlunar og 1.500 starfsmenn. fréttablaðið/valli

Samkomulag um faglegt og fjárhagslegt fyrirkomulag á tilfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna var undirritað í gær. Frumvarp til laga um tilfærsluna verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum. Málefni fatlaðra færast til sveitarfélaganna 1. janúar 2011.

Flutningur málaflokksins varðar um 2.500 einstaklinga sem þurfa þjónustu vegna fötlunar sinnar og um 1.500 starfsmenn í rúmlega þúsund stöðugildum sem annast þjónustuna. Við yfirfærsluna skipta langflestir starfsmenn um vinnuveitanda og verða engar breytingar á kjörum þeirra eða réttindum.

Störf um sextíu starfsmanna á svæðisskrifstofum málefna fatlaðra verða lögð niður en sveitarfélögin munu leitast við að bjóða sem flestum þeirra störf á sínum vegum.

Þjónustuþættir sem sveitarfélögin taka við eru sambýli, áfangastaðir, frekari liðveisla við íbúa í þjónustu- og íbúðakjörnum og í sjálfstæðri búsetu, hæfingarstöðvar og dagvistarstofnanir, verndaðir vinnustaðir og atvinna með stuðningi, heimili fyrir börn og skammtímavistanir.- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×